3.6.2007 | 11:01
Reykingalög
Þá eru Íslendingar komnir í hóp þeirra þjóða sem banna reykingar á veitingastöðum. Ég er staddur á Íslandi þessa daga og brá mér niður í bæ í gær til að kíkja aðeins á lífið. Þetta er mikill munur innandyra, en nú sér maður það sem ég þekki frá Noregi, að það standa hópar af reykingafólki fyrir utan veitingastaðina og til þess að komast inn eða út, þarf maður að ganga gegnum reykskýið. Sumarið verður góður aðlögunartími, það verður ekki gaman að híma á tröppunum þegar veturinn kemur.
Ég var hættur að reykja þegar þessi lög voru sett á í Noregi, svo mér fannst ég ekki hafa neina hagsmuni af því að leyfa reykingar á veitingastöðum. Ég var hins vegar þeirra skoðunar að þetta væri hægt að leysa með frjálsri samkeppni. Þeir staðir sem sæktust eftir reyklausum gestum gætu bannað þær hjá sér og svo væru aðrir staðir sem sæktust eftir reykingafólki. Fólk fer mikið á milli staðanna hvort sem er, svo þannig gætu menn skipst á að fara á reykinga- eða reyklausa staði. Ef það er tilfellið að meirihlutinn vill reyklausa staði þá ætti þeim að fjölga smám saman meðan reykingastöðunum myndi fækka. Ég hef ekki heyrt af því að slík tilraun hafi verið gerð, en ekki heldur fengið góð rök fyrir því af hverju þetta gæti ekki gengið.
Í Noregi voru aðalrökin fyrir banninu, heilsuvernd starfsfólksins á veitingastöðunum og vissulega er erfitt að mótmæla þeim. Það er hins vegar athyglivert að það eru til fleiri tæknilegar lausnir til að draga stórlega úr reykmengun t.d. með því að setja upp s.k. reykteppi (sérstök loftræsting) yfir barborðið, en slíkar lausnir hafa ekki ná uppá pallborðið.
Mér finnst skemmtilegt að skoða hvernig mál geta sveiflast milli þess að leysa megi flest, ef ekki öll, vandamál með tækniþróun annars vegar og hinnar hliðarinnar, sem er að almenningsálitið veldur straumhvörfum á því hvernig samfélagið leysir úr vandamálunum. Dæmi um svona togstreitu er hvort sé betra fyrir umhverfið að þróa bíla og flugvélar sem menga minna, eða ferðast minna og nota farskiptatæknina til að hafa samband við fólk. Ég er svolítið að bíða eftir því að mönnum detti í hug önnur leið til að leysa umferðarvandann í Reykjavík, en að byggja fleiri og stærri umferðarmannvirki. (meira um þetta seinna)
Annars er ég mjög ánægður með reynsluna af reykingabanninu í Noregi og óska Íslendingum til hamingju með að vera komnir í hópinn.
Spurning hvað það líða mörg ár þangað til tóbaksneysla verður alfarið bönnuð á Íslandi (sbr. tyggjóbannið í Singapore).
Lýkur hér öðru bloggi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.